Stjórnarhættir

Stjórn Landsnets

GOV-1

Stjórn Landsnets hf. hefur æðsta vald í málefnum okkar á milli aðalfunda. Stjórnin ber ábyrgð á stefnumótun og stærri ákvörðunum á milli hluthafafunda sem m.a. eru tilgreindar í starfsreglum stjórnar. Stjórnin fer með málefni fyrirtækisins og skal sjá til þess að stjórnskipulag rekstrar þess og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi. Stjórnin ræður forstjóra sem ber ábyrgð á daglegum rekstri.

Í stjórninni sitja fimm einstaklingar – þrjár konur og tveir karlar. Að auki eru tveir varamenn í stjórn. Stjórnin uppfyllir því skilyrði hlutafélagalaga um að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%.

Kynjahlutfall stjórnar

Upplýsingagjöf um sjálfbærni

GOV-2

Stjórnin ber ábyrgð á stefnumótun og eftirfylgni í sjálfbærnimálum og tryggir að sjálfbærni sé órjúfanlegur hluti af starfseminni. Framkvæmdastjórn fylgir eftir aðgerðum og metur árangur með reglulegum mælingum og skýrslugjöf. Stýrihópur um sjálfbærnimál upplýsir stjórn og framkvæmdastjórn reglulega um framvindu mála og leggur fram tillögur að umbótum og stefnumarkandi ákvörðunum. Stjórnin ber ábyrgð á því að samþykkja og yfirfara sjálfbærnistefnu fyrirtækisins og tryggja að hún sé í samræmi við stefnu stjórnvalda og alþjóðlegar kröfur.

Eftirlit með sjálfbærniaðgerðum er tryggt með innri og ytri úttektum, þar sem árangur er metinn á grundvelli skilgreindra mælikvarða. Skýrslugjöf um sjálfbærni er hluti af reglulegri upplýsingagjöf til stjórnar og framkvæmdastjórnar, niðurstöður eru nýttar til að bæta og þróa sjálfbærnistefnu og aðgerðir enn frekar. Með þessu verklagi er tryggt að sjálfbærni sé samofin starfsemi fyrirtækisins og að stjórn og framkvæmdastjórn hafi virkt eftirlit með framgangi hennar.

Hvatar og árangur í sjálfbærnimálum

GOV-3

Hvatagreiðslur eru ekki greiddar hjá okkur, hvorki vegna sjálfbærnimála né annarrar vinnu, og eru ekki hluti af launagreiðslum fyrirtækisins.

Við höfum sett markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og innleitt mótvægisaðgerðir til að minnka áhrif loftslagsbreytinga á rekstur og flutningskerfi raforku.

Við greiðum starfsfólki samgöngustyrki ef ferðast er á hjóli eða í almenningssamgöngum til að draga úr losun í umfangi 2. Þannig tengjum við sjálfbærni við hvata og minnkum losun.

Yfirlýsing um áreiðanleika

GOV-4

Við höfum unnið að kortlagningu á sjálfbærniáhættum í tengslum við starfsemina. Forstjóri og stjórn ber ábyrgð á sjálfbærnimálum innan fyrirtækisins en framkvæmdin er í höndum framkvæmdastjóra mannauðs og umbóta ásamt stýrihópi um sjálfbærni sem metur áhættur og tækifæri varðandi mikilvægustu sjálfbærniþætti fyrirtækisins.

Helstu sjálfbærniáhættur hafa verið metnar með framkvæmd tvöfaldrar mikilvægisgreiningar, þar sem þverfaglegur hópur úr starfsemi fyrirtækisins vann greininguna og lagði mat á helstu áhættur. Unnið er með sjálfbærniáhættur t.d. tengdar mannauði og stjórnarháttum á reglubundnum fundum framkvæmdastjórnar og á rýni stjórnenda.

Áhrif helstu loftslagsáhætta á mannvirki fyrirtækisins hafa verið metnar af sérfræðingum fyrirtækisins út frá mismunandi sviðsmyndum og greiningu sem byggir á ágripi fjórðu samantektarskýrslu vísindanefndar um loftlagsbreytingar og sérfræðiþekkingar sjálfbærniteymis KPMG. Framtíðarsviðsmyndir loftslagsáhætta, bjartsýnar og svartsýnar voru síðan metnar og út frá niðurstöðum þess mats var gerð aðgerðaráætlun til að bregðast við þar sem áhætta er metin mikil. Áhættumat fyrir mannvirki Landsnets er mikilvægur þáttur í framtíðaruppbyggingu kerfisins, viðhaldsáætlana og nýtist í allri vinnu við mat á umhverfisáhrifum og við staðarval mannvirkja framtíðarinnar.

Áhættustýring og stjórnun á skýrslugerð

GOV-5

Áhættustjórnun er hluti af stjórnkerfinu okkar og notuð til að tryggja árangursríkan, ábyrgan og samfelldan rekstur. Áhersla er lögð á að styðja við grunnhlutverk okkar sem er að flytja raforku með samfelldum, öruggum og hagkvæmum hætti. Þá er áhersla lögð á að fjárhagsleg staðan sé ávallt traust.

Framkvæmd áhættustjórnunar tekur mið af meginreglum og leiðbeiningum alþjóðlegra staðla. Stjórnendur og lykilstarfsmenn auðkenna áhættu, fjárhagslega og ófjárhagslega, og leggja mat á mikilvægi hennar. Í framhaldi af auðkenningu er áhætta flokkuð, metin og meðhöndluð.

Nýjar sjálfbærnireglugerðir hafa tekið gildi á Íslandi. Kortlagning á sjálfbærniáhættum er hafin, en þær taka til umhverfisþátta, félagslegra þátta og stjórnarhátta. Mat á sjálfbærniáhættum er hluti af almennu áhættumati félagsins og verður áfram unnið með þær á komandi árum.

Til staðar eru viðbragðsáætlanir til þess að tryggja samfelldan rekstur. Þar á meðal eru viðbragðsáætlanir vegna stærri atburða sem geta haft veruleg áhrif á rekstur félagsins, svo sem vá vegna óveðurs, jarðskjálfta, eldgosa, truflana o.s.frv. Á árinu 2024 reyndi á viðbragðsáætlanir í tengslum við tíð eldgos á Reykjanesi.