Undirbúningur
Viðskiptamódel og sjálfbærniáherslur
Við störfum samkvæmt reglugerðarbundnum ramma við að tryggja örugga, hagkvæma og sjálfbæra flutningsþjónustu fyrir rafmagn.
Í sjálfbærnistefnunni okkar er lögð áhersla á að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda frá rekstri okkar, meðal annars með orkuskiptum og bættri orkunýtingu. Við leggjum einnig áherslu á sjálfbærar framkvæmdir við uppbyggingu og viðhald flutningskerfisins, þar sem umhverfisáhrif og líffræðileg fjölbreytni eru höfð í huga. Við tryggjum gagnsæi, trausta áhættustýringu og góða stjórnarhætti í öllu okkar starfi. Samfélagsleg ábyrgð er okkur mikilvæg og við leggjum áherslu á að starfsemi okkar samræmist hagsmunum hagaðila.
Öflun gagna
Til að tryggja áreiðanleika og rekjanleika gagna í þessari sjálfbærniskýrslu nýtum við fjölbreyttar aðferðir við gagnaöflun. Við framkvæmum innri mælingar á rekstri og losun, sem fela í sér orkunotkun, losun gróðurhúsalofttegunda og umhverfisáhrif framkvæmda. Við nýtum einnig gögn frá eftirlitsstofnunum og hagaðilum, upplýsingar frá birgjum og samstarfsaðilum, og notum reikniforsendur sem byggja á viðurkenndum alþjóðlegum aðferðum. Við leggjum áherslu á óháða úttekt og vottanir til að tryggja að starfsemin samræmist ströngustu sjálfbærniviðmiðum. Fyrirtækið fær vottanir frá viðurkenndum aðilum fyrir stjórnunarkerfið. Auk þess fáum við óháða ráðgjöf varðandi umhverfisáhrif, kolefnisspor og sjálfbærniáhrif, sem er innleitt í sjálfbærniskýrslugerð í samræmi við alþjóðleg viðmið.
Fyrri sjálfbærniskýrsla
Við höfum áður gefið út sjálfbærniskýrslu í samræmi við GRI staðla (Global Reporting Initiative). Í takt við nýjar kröfur Evrópusambandsins um sjálfbærniskýrslugerð (Corporate Sustainability Reporting Directive – CSRD) höfum við hafið yfirfærslu yfir í ESRS (European Sustainability Reporting Standards). Yfirfærslan felur í sér dýpri greiningu á áhrifum starfseminnar á umhverfi og samfélag, vistferilsgreiningu unna af Eflu verkfræðistofu, aukna áherslu á sjálfbærni innan áhættustýringar og viðskiptamódels, og betri aðlögun að löggjöf ESB og íslenskum reglum um sjálfbærniskýrslur.
Sjálfbærniáherslur
Stýrihópur í sjálfbærni hefur starfað hjá okkur í tvö ár og samanstendur af sérfræðingum frá ólíkum sviðum. Hópurinn skilar reglulega upplýsingum til stjórnar og vinnur að auknu gagnsæi um áhrif fyrirtækisins á umhverfi, samfélag og efnahag. Á síðasta ári gáfum við út okkar fyrstu sameiginlegu árs- og sjálfbærniskýrslu samkvæmt GRI-stöðlum. Í ár hefur hópurinn innleitt ESRS-staðla sem byggja á CSRD-tilskipun ESB. Fyrirtækið Langbrók ráðgjöf hefur unnið með okkur í þessu ferli.
Helstu verkefni eru innleiðing nýrra mælikvarða, aðlögun aðgerða, gagnasöfnun og stefnumörkun til lengri tíma. Einnig er unnið að kortlagningu áhrifa starfseminnar á virðiskeðjuna og innleiðingu nýrra birgjaskilmála fyrir umfang 3 í uppgjöri 2025. Við byggjum áfram á tvöfaldri mikilvægisgreiningu KPMG frá 2023.
Greining og upplýsingagjöf varðandi sérstakar aðstæður
Sérstakar kringumstæður og óvæntir atburðir geta haft áhrif á rekstur flutningskerfis og dreifingu raforku. Óvæntir atburðir geta til að mynda tengst náttúruvá og veðurfari, dómsmálum, starfsleyfum, samskiptum við landeigendur og nærsamfélag og orkuskorti.
Óvæntir viðburðir og viðbrögð
Ef óvæntir atburðir eða frávik sem haft geta áhrif á rekstur fyrirtækisins, samanber hér að ofan, eru stjórn og stjórnendur upplýst um viðbrögð fyrirtækisins og aðgerðir til að draga úr áhættuog/ eða nýta sem tækifæri til umbóta. Sama á við um ef breytingar á löggjöf á sviði orkumála eru samþykkt af stjórnvöldum sem að krefjast viðbragða fyrirtækisins.
Samstarf við hagaðila er grundvallaratriði fyrir okkur. Við leggjum áherslu á reglulegt samráð við stjórnvöld, sveitarfélög og aðra hagaðila um sjálfbærni og rekstraröryggi. Þetta samstarf tryggir samvinnu og samhæfingu við ákvarðanatöku og hjálpar við að bæta samfélagslega ábyrgð.