Vatn og sjór

ESRS E3

Ferlar til að greina áhættur og tækifæri

ESRS 2

IRO-1

Í framkvæmdum og rekstri flutningskerfisins eru áhrif á vatn og sjó alla jafna lítil. Helst á það við ef lagðir eru strengir yfir ár eða í sjó. Einnig getur það átt við þegar efni til framkvæmda er sótt á efnistökusvæði í og við vatnsföll.  Eftir eðli og umfangi framkvæmda er unnið að undirbúningi þeirra skv. lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Í þeirri málsmeðferð er varpað ljósi á helstu áhættur og þá þau tækifæri sem eru til að lágmarka þær.  Verklagsreglur fyrirtækisins gera ráð fyrir að á framkvæmdatíma sé haft eftirlit með því að unnið sé í samræmi við loforð/skilyrði sem komu fram á undirbúningsstigi. Skilyrði um mótvægisaðgerðir sem koma fram á undirbúningstíma eiga því að skila sér í til leyfisveitanda, t.d í starfsleyfum sem sækja þarf um vegna framkvæmda innan vatnsverndarsvæða. Við umsóknir um leyfi til framkvæmda leggur Landsnet fram áhrifamat m.t.t. áhrifa á vatnshlot í samræmi við  lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála.

Stefna

E3-1

Ein megináhersla í umhverfishluta sjálfbærnistefnu fyrirtækisins er að verkefni skulu miða að því að umgangast náttúruna með varfærnum hætti, lágmarka áhrif á umhverfið, þ.m.t sjó og vatn, vinna markvisst eftir skilgreindu verklagi og leggja fram mótvægisaðgerðir eftir því sem við á.

Aðgerðir

E3-2

Samhliða umsóknum um framkvæmdaleyfi sem geta snert vatnshlot, er lagt fram áhrifamat fyrir vatnshlot skv. lögum um stjórn vatnamála nr. 36/2011 sem grundvallast á tilskipun Evrópuráðsins 2000/60/EB.  Við framkvæmdir og rekstur er unnið eftir gæðakerfi fyrirtækisins, þar sem skráðir verkferlar, leiðbeiningar og gátlistar nýtast til að lágmarka áhættu m.t.t vatns og sjávar.

Eftir atvikum er unnið áhættumat, sé gerð krafa um slíkt.  Þar er lagt mat á möguleg áhrif olíuflutninga, olíunotkunar, efnisflutninga, mastra, lagningu vegslóða, mastraplana og jarðstrengsskurða.  Við undirbúning leyfa eru eftir atvikum lagðar fram viðbragðsáætlanir m.t.t. þess hvaða aðgerða skal grípa til komi til mengunarslysa, þá oft í samráði við heilbrigðiseftirlit. Má þar nefna öryggisreglur fyrir verktaka, búnaður sem er hafður til hreinsunar, námskeiðahald fyrir verktaka og lekaprófanir og ástandsskoðanir vinnutækja sem fara inn á vatnsverndarsvæði.

Markmið

E3-3

Við vinnum markvisst að því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif vegna framkvæmda og reksturs. Komi til óhappa, t.d. vegna olíuleka eða losun annarra mengandi efna við framkvæmdir eða rekstur sem snertir sjó og vatn , er brugðist við í samræmi við verklagsreglur og skráðar mótvægisaðgerðir.  Ekki voru skráð nein alvarleg tilvik á árinu sem varðar olíuleka eða önnur mengandi efni sem mengað hafa loft, vatn eða jarðveg.

Vatnsnotkun

E3-4

Vatnsnotkun fyrirtækisins, bæði heitt og kalt vatn á árinu 2024 má sjá á eftirfarandi gröfum:

Fjárhagsleg áhrif

E3-5

Framkvæmdir við flutningskerfið og rekstur þess er ekki háð nýtingu vatns og hefur þ.a.l óveruleg áhrif á vatns- og sjávarauðlindir. Engu að síður geta orðið ófyrirsjáanleg atvik eða óhöpp sem hafa áhrif á sjó og/eða vatn, sem þá verður að bregðast við. Tekið er á afleiðingum umhverfisslysa og umhverfisrasks í áhættumati fyrirtækisins.